EN

Jean-Efflam Bavouzet

Píanóleikari

Jean-Efflam Bavouzet fæddist í Frakklandi 1962 og lærði píanóleik við Konservatóríið í París. Hann vakti fyrst athygli á heimsvísu þegar hljómsveitarstjórinn kunni, Georg Solti, valdi hann til að debútera á tónleikum með Orchestre de Paris árið 1995.

Bavouzet hefur komið fram með hljómsveitarstjórum á borð við Pierre Boulez, Vladimir Jurowski, Andris Nelsons og Iván Fischer og leikur reglulega með hljómsveitum á borð við Cleveland-hljómsveitina, Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco, Fílharmóníuhljómsveit Lundúna og BBC-sinfóníuhljómsveitina. Bavouzet hefur komið fram á upphafstónleikum Mostly Mozart-hátíðarinnar í Lincoln Center í New York og á Proms-tónlistarhátíð Breska ríkisútvarpsins, auk þess sem hann hefur leikið í öllum helstu tónleikasölum heims og haldið einleikstónleika m.a. í Wigmore Hall og Concertgebouw-salnum í Amsterdam.

Bavouzet hefur hljóðritað fjölda hljómdiska fyrir Hyperion-útgáfuna, meðal annars píanósónötur eftir Haydn og Beethoven, konserta Bartóks og píanótónlist Debussys. Diskar hans hafa hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar, meðal annars tvenn Gramophone-verðlaun fyrir konserta eftir Debussy og Ravel, og fyrir fjórða hefti af píanótónlist Debussys. Einnig hefur hann hlotið BBC Music Magazine-verðlaunin, Choc de la Musique, og Diapason d’Or. Þá hlaut hann „International Classical Music Awards“ verðlaunin árið 2012 og sama ár var hann tilnefndur til Gramophone-verðlauna í flokknum Tónlistarmaður ársins.

Meðal hápunkta síðasta starfsárs voru tónleikar í Lincoln Center í New York ásamt Fílharmóníusveit Lundúna, tónleikar með Fílharmóníusveitunum í Helsinki og Monte Carlo, tónleikaferðalag um Kína og einleikstónleikar í Louvre í París og Wigmore Hall í Lundúnum.