EN

Jesper Busk Sørensen

Einleikari

Danski básúnuleikarinn Jesper Busk Sørensen ólst upp í bænum Grenå sem liggur nálægt Árósum. Þar stundaði hann tónlistarnám við Konunglega tónlistaháskólann hjá Niels-Ole Bo Johansen, Rolf Sandmark og Jesper Juul. Árið 2002 hóf hann atvinnuferil sinn sem 2. básúnuleikari í Sinfóníuhljómsveit Árósa og vann sig síðar upp í 1. sætið. Hann stundaði frekara nám hjá Michael Mulcahy básúnuleikara Chicago-sinfóníunnar í Northwestern University í Evanston í Illinois-fylki. Árið 2009 tók hann við stöðu 2. básúnuleikara í Fílharmóníuhljómsveit Berlínar.

Sørensen leikur með Danska básúnukvartettinum og hefur með honum frumflutt mörg nútímaverk. Þá kennir hann við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og hefur í þrígang verið fulltrúi Berlínarfílharmóníunnar á PMF (Pacific Music Festival) sem er alþjóðleg akademía og haldin er árlega í borginni Sapporo í Japan. Hefur hann komið þar fram með málmblásturssveit hljómsveitar sinnar og sem kennari.

Jesper Busk Sørensen hafði frumkvæði að tilurð þessa nýja Básúnukonserts sem tónskáldið Bo Holten gaf heitið Concerto Lírico. Var konsertinn frumfluttur í Musikkens Hus í Álaborg (Ålborg) 29. febrúar síðastliðinn. Fór Jesper Busk Sørensen með einleikshlutverkið en með honum lék Sinfóníuhljómsveit Álaborgar og líkt og í kvöld stjórnaði Thomas Søndergård flutningnum. Hljómar verkið nú í annað sinn á tónleikum kvöldsins hér í Eldborgarsal Hörpu.