EN

Jess Gillam

Saxófónleikari

Breski saxófónleikarinn Jess Gillam hefur vakið fádæma hrifningu tónlistarunnenda undanfarin ár. Þrátt fyrir að vera aðeins tuttugu og þriggja ára gömul hefur hún þegar komið fram með fjölda hljómsveita, meðal annars Minnesota-hljómsveitinni í Bandaríkjunum, Skosku kammersveitinni og Konunglegu fílharmóníusveitinni. Hún hlaut Classical BRIT verðlaunin árið 2018 og kom meðal fram á hinum frægu Last Night of the Proms-tónleikum sama ár við frábærar viðtökur. Á meðan heimsfaraldur kórónuveirunnar geisaði stofnaði hún hljómsveitina Virtual Scratch Orchestra, þar sem fólk af öllum kunnáttustigum á hljóðfæri gat safnast saman í netheimum og leikið tónlist með Jess. Yfir 2000 manns frá um 30 þjóðlöndum tóku þátt í verkefninu, frá aldrinum tveggja til níutíu og fjögurra ára. Fyrr á þessu ári sæmdi Elísabet II. Bretadrottning hana riddarakrossinum MBE (The Most Excellent Order of the British Empire) fyrir störf sín að tónlistarmálum.

Jess Gillam hefur gefið út tvo geisladiska hjá Decca, RISE og TIME, og fóru báðir beint í efsta sæti klassíska vinsældalistans í Bretlandi. Hún hefur einnig framleitt útvarpsþætti um klassíska tónlist og er yngsti dagskrárgerðarmaður sem starfað hefur hjá BBC Radio3. Þetta er í fyrsta sinn sem hún kemur fram á Íslandi.