EN

Johan Dalene

Fiðluleikari

Johan Dalene er af sænsku og norsku bergi brotinn og hefur þegar vakið heimsathygli fyrir fiðluleik sinn, þótt hann sé aðeins 23 ára gamall. Til marks um það má nefna að tímaritið Gramophone valdi hann nýlega á lista yfir tíu tónlistarmenn sem líklegir eru til að hafa mótandi áhrif á flutning klassískrar tónlistar á 21.öld.

Johan hóf fiðlunám fjögurra ára gamall og kom fyrst fram sem einleikari með hljómsveit þremur árum síðar. Hann tók þátt í svokölluðu Crescendo-prógrammi fyrir unga tónlistarmenn í Noregi árið 2018 þar sem hann naut handleiðslu Janine Jansen, Leifs Ove Andsnes og Gidons Kremer. Ári síðar sigraði hann í Carl Nielsen fiðlukeppninni, var skömmu síðar útnefndur New Generation Artist af Breska ríkisútvarpinu (BBC) og hélt fjölda tónleika á vegum þess næstu þrjú árin. Samtök evrópskra tónlistarhúsa (ECHO) völdu hann „Rísandi stjörnu“ tónleikaárið 2021–22 og hann hélt þá tónleika í ýmsum helstu konsertsölum álfunnar, svo sem í Vín, Amsterdam, Barselóna, Hamborg og París. Á yfirstandandi starfsári er hann staðarlistamaður hjá sinfóníuhljómsveitinni í Gävle í Svíþjóð og hjá Konunglegu fílharmóníusveitinni í Liverpool.

Johan leikur á Stradivarius fiðlu frá 1725, ”Duke of Cambridge, ex Louis Spohr, ex Camilla Wicks”, sem hann hefur að láni frá Anders Sveaas' Almennyttige Fond.