EN

Joshua Weilerstein

Hljómsveitarstjóri

 

Bandaríski hljómsveitarstjórinn Joshua Weilerstein er listrænn stjórnandi Kammerhljómsveitarinnar í Lausanne auk þess sem hann er vinsæll gestastjórnandi hljómsveita í Evrópu og Bandaríkjunum og hefur vakið athygli fyrir breitt og óvenjulegt verkefnaval. Á yfirstandandi tónleikaári hefur hann m.a. stýrt Fílharmóníuhljómsveit BBC, Fílharmóníuhljómsveitinni í Ósló, Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti og Þýsku kammerfílharmóníunni í Bremen. Þá hefur hann einnig stjórnað sinfóníuhljómsveitunum í Vancouver og Milwaukee, og Melbourne-sinfóníunni í Ástralíu.

Weilerstein vakti fyrst heimsathygli þegar hann hlaut bæði fyrstu verðlaun og áhorfendaverðlaun í hinni virtu Malko-hljómsveitarstjórakeppni í Kaupmannahöfn árið 2009. Í kjölfarið hefur hann átt gott samband við helstu hljómsveitir Norðurlanda, til dæmis í Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, en þetta er í fyrsta sinn sem hann stjórnar á Íslandi. Hann var aðstoðarstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í New York um árabil og gegndi einnig um skeið sömu stöðu hjá Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles. Árið 2017 kom hann fram í fyrsta sinn á Proms-tónleikahátíð Breska útvarpsins í Royal Albert Hall, þar sem systir hans, Alisa, lék einleik á selló með Sinfóníuhljómsveit BBC. Faðir þeirra, Donald Weilerstein, var um árabil fyrsti fiðluleikari Cleveland-kvartettsins auk þess að vera heimsþekktur fiðlukennari, og móðir þeirra Vivian er píanóleikari.