EN

Juanjo Mena

Hljómsveitarstjóri

Spænski hljómsveitarstjórinn Juanjo Mena hóf feril sinn sem listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Bilbao árið 1999. Hann vakti fljótt athygli langt út fyrir heimaland sitt og var skipaður aðalgestastjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Bergen og við óperuhúsið í Genova á Ítalíu. Árið 2011 tók hann við stöðu aðalstjórnanda hjá Fílharmóníusveit BBC og gegndi því starfi í sjö ár. Auk þess hefur Mena stjórnað helstu hljómsveitum álfunnar, til dæmis Fílharmóníusveit Berlínar, Útvarpshljómsveit Bæjaralands, Gewandhaus-hljómsveitinni í Leipzig, Fílharmóníusveitunum í Lundúnum og Ósló, og þannig mætti lengi telja. Þá hefur hann stjórnað flestum helstu hljómsveitum Bandaríkjanna, meðal annars í Boston, Chicago, Cleveland, New York og Los Angeles.

Á yfirstandandi tónleikaári hefur Mena meðal annars stjórnað tónleikum í Pittsburgh og Washington D.C., Ósló og Bergen, og kom auk þess í fyrsta sinn fram með Fílharmóníusveitinni í Japan. Í júní næstkomandi stjórnar hann nýrri uppfærslu á óratóríunni Jóhönnu af Örk eftir Arthur Honegger við Teatro Real í Madrid. Hann hefur stjórnað fjölda óperusýninga og má þar meðal annars nefna Hollendinginn fljúgandi eftir Wagner, Salóme og Elektru eftir Richard Strauss, Brúðkaup Fígarós eftir Mozart og Fidelíó eftir Beethoven.

Mena hefur hljóðritað fjölda hljómdiska fyrir Fílharmóníusveit BBC og hafa þeir vakið mikla athygli og hlotið lofsamlegar umsagnir gagnrýnenda. Nýjasta plata hans er 6. sinfónía Bruckners, en auk þess hefur hann hljóðritað m.a. sinfóníur eftir Carl Maria von Weber, Turangalîla-sinfóníuna eftir Olivier Messiaen og hljómsveitarverk eftir Alberto Ginastera.