EN
  • Judith_Ingolfsson_Portrait

Judith Ingólfsson

Einleikari

Fiðluleikarinn Judith Ingólfsson er dóttir Ketils Ingólfssonar stærðfræðings og tók fyrstu skrefin í tónlistinni sem nemandi í Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Hér á landi kom hún ung fram sem einleikari, lék m.a. einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands 15 ára gömul í fiðlukonserti eftir Mozart. Hún hélt áfram fiðlunámi í Bandaríkjunum, við Curtis Institute í Fíladelfíu og Cleveland Institute of Music. Hún sigraði í Alþjóðlegu fiðlukeppninni í Indianapolis árið 1998 og vann einnig til verðlauna í Paganini-keppninni í Genoa. Hún hefur m.a. komið fram með hljómsveitarstjórunum Wolfgang Sawallisch og Leonard Slatkin, og leikið einleik með Philadelphia-hljómsveitinni, Þjóðarhljómsveit Bandaríkjanna og St. Louis-sinfóníuhljómsveitinni. Judith er nú búsett í Berlín og er prófessor í fiðluleik við Tónlistarháskólann í Stuttgart. Hún leikur á fiðlu smíðaða af Lorenzo Guadagnini árið 1750.