EN

Kammerkór Tónlistarháskólans í Graz

Söngvarar kammerkórsins koma bæði úr röðum hljóðfæraleikara og söngvara í Tónlistarháskólanum. Meðal helstu tónleika þeirra má nefna flutning á Requiem eftir W. A. Mozart, Sköpuninni eftir J. Haydn, Misa Tango eftir Luis Bacalov sem og Austurríkis-frumflutning á Requiem ebraico eftir Eric Zeisl í Graz sýnagógunni árið 2006.

Kórinn fór í tónleikaferðalag til Ljubljana í Slóveníu árið 2022 og var það hluti af ErasmusPLUS verkefni. Þá settu þau saman efnisskrá með tónlist eftir slóvensk og austurrísk tónskáld í samstarfi við Kammerkór tónlistarháskólans í Ljubljana og fluttu á tónleikum í Ljubljana og í Graz á alþjóðlegu kórhátíðinni Voices of Spirit. Í júní sama ár kom kórinn fram á opnunarhátíð Styriarte, einnar helstu tónlistarhátíðar Austurríkis.

Kórinn tekur þátt í Erasmus+ verkefni árið 2023 og hefur tónskáldið Victor Urbancic að viðfangsefni og tengingu hans við Graz og Austurríki annars vegar og Reykjavík og Ísland hinsvegar. Samstarfsaðilar kórsins í verkefninu eru Háskólakórinn og Menntaskóli í tónlist. Kórinn flytur á tónleikum tónlist eftir Victor Urbancic sem og önnur austurrísk tónskáld og þjóðlagatónlist og hefur það að markmiði með verkefninu að komast í kynni við skóla og kóra og stofna til frekara samstarfs.

Stjórnandi kórsins er Franz Herzog.