EN

Kór Flensborgarskóla

Kór Flensborgarskólans á sér langa og farsæla sögu, lengst af eða í rúm 26 ár undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg. Mikill fjöldi hafnfirskra ungmenna hefur tekið þátt í söngstarfi Kórs Flensborgarskólans í gegnum árin og hefur það orðið mörgum hvatning til áframhaldandi tónlistarnáms og ­iðkunar. Alla tíð hefur verið lögð áhersla á að kynna fyrir kórfélögum fjölbreytta og vandaða tónlist frá ólíkum tímabilum, jafnt erlenda sem innlenda og má þess geta að fjölmörg íslensk tónskáld hafa samið verk sérstaklega fyrir kórinn. Meðal þeirra landa sem kórinn hefur ferðast til eru Eistland, Spánn, Portúgal, Ítalía, Sviss, Kanada, Þýskaland og Austurríki. Þar ber hæst sigur í flokki þjóðlagatónlistar í kórakeppni á Spáni árið 2002.