EN

Kór Langholtskirkju og Mótettukórinn

Kór Langholtskirkju
Kór Langholtskirkju var stofnaður árið 1953 og hefur allar götur síðan getið sér gott orð fyrir flutning á stórum, klassískum verkum úr tónlistarsögunni, þar sem meistaraverk Bachs hafa verið í öndvegi. Á undanförnum árum hefur kórinn jafnframt einbeitt sér að söng án undirleiks og meðal annars flutt kórkonsert Schnittkes og Náttsöngva Rakhmanínovs, auk þess sem hann tók þátt í hinni virtu kórakeppni Florilège Vocal de Tours árið 2019. Kór Langholtskirkju hefur ætíð lagt mikið upp úr því að flytja ný, íslensk verk. Af þeim má nefna Guðbrandsmessu sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi fyrir kórinn í tilefni 50 ára afmælis hans og kom út á hljómdiski árið 2008. Kórinn hefur á ferli sínum gefið út margar aðrar plötur, svo sem Jóhannesarpassíuna eftir Bach (1987), Barn er oss fætt (1991), An Anthology of Icelandic Choir Music (1993), Ísland er lýðveldi (1994), og Land míns föður (1997). Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson.

Mótettukórinn
Mótettukórinn var stofnaður árið 1982 og hefur lengi verið meðal fremstu kóra landsins. Á verkefnalista hans eru óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka. Mótettukórinn hefur farið í margar tónleikaferðir og tekið þátt í tónlistarhátíðum á borð við Listahátíðina í Björgvin, Norrænu kirkjutónlistarhátíðina í Gautaborg og Wiener Festwochen í Vínarborg. Kórinn vann til verðlauna í Alþjóðlegu kórakeppninni í Cork á Írlandi árið 1996 og til þriggja gullverðlauna í keppninni Cançó Mediterrània á Spáni árið 2014. Meðal stórverka sem Mótettukórinn hefur flutt má nefna Messías eftir Händel, Mattheusarpassíuna, Jóhannesarpassíuna, Jólaóratóríuna og Messu í h-moll eftir Bach, Sálumessu Mozarts, óratóríurnar Elía og Pál postula eftir Mendelssohn og Þýska sálumessu eftir Brahms. Kórinn hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins 2021 í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Stjórnandi kórsins er Stefan Sand