EN

Kristín Anna Guðmundsdóttir

Einsöngvari

Kristín Anna Guðmundsdóttir söng í kórum Langholtskirkju frá fjögurra ára aldri undir leiðsögn Jóns Stefánssonar. Hún hóf söngnám 14 ára hjá Hörpu Harðardóttur og útskrifaðist frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2014. Sama ár hélt hún til Berlínar þar sem hún stundaði framhaldsnám við Hanns Eisler-tónlistarháskólann og lauk þaðan meistaragráðu með hæstu einkunn árið 2021. Að útskrift lokinni söng hún í frumuppfærslu óperunnar Sleepless eftir Peter Eötvös við Ríkisóperuna Unter den Linden í Berlín, óperuna í Genf og í Müpa tónlistarhúsinu í Búdapest. Sumarið 2022 fór hún með hlutverk Micaëlu í Carmen á Schlossfestspiele Ettlingen og söng Greifynjuna í Brúðkaupi Fígarós við Króatísku þjóðaróperuna í Varaždin. Í nóvember 2023 söng hún einsöng með Fílharmóníusveitinni í Dresden í 6. sinfóníu Leru Auerbach (Vessels of Light) undir stjórn François Leleux, og ári síðar flutti hún sama verk með Konzerthaushljómsveitinni í Berlín undir stjórn Joönu Mallwitz.

Á þessu leikári er Kristín Anna fastráðin við óperuhúsið í Bremerhaven í Þýskalandi þar sem hún syngur Gertrud í Hans og Grétu, Greifynjuna í Brúðkaupi Fígarós og fer með ýmis hlutverk í óperunni Pétri Gaut eftir Jüri Reinvere, auk þess að koma fram á tónleikum.