EN

Kristín Sveinsdóttir

Einsöngvari

Kristín Sveinsdóttir hóf ung að syngja í kórum Langholtskirkju og kom þar oft fram sem einsöngvari undir stjórn Jóns Stefánssonar. Hún lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík haustið 2013 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur en hefur einnig sótt söngtíma hérlendis til Sigríðar Ellu Magnúsdóttur og Janet Haney. Árið 2014 hélt Kristín til Vínarborgar og stundaði söngnám við tónlistarháskólann þar í borg næstu árin. Á námstímanum tók hún sér rúmlega ársleyfi til að syngja við óperustúdíó Teatro alla Scala í Mílanó. Hún kom þar fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri, m.a. í Töfraflautunni eftir Mozart undir stjórn Ádáms Fischer, á árlegum jólatónleikum óperuhússins undir stjórn Franz Welser-Möst og í Rósariddaranum eftir Strauss undir stjórn Zubins Mehta.

Kristín hefur verið búsett á Íslandi frá 2020 og er ein stofnenda Kammeróperunnar. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari við ýmis tilefni. Nú síðast söng hún hlutverk Cherubinos í Brúðkaupi Fígarós í Borgarleikhúsinu og frumflutti öróperuna Halfway Down eftir Elínu Gunnlaugsdóttur á Myrkum músíkdögum. Á síðasta leikári fór Kristín með hlutverk Hans í Hans og Grétu eftir Humperdinck og hlutverk húsfreyjunnar Ástu í Gilitrutt eftir Þórunni Guðmundsdóttur.