EN

Kristín Ýr Jónsdóttir

Þverflautuleikari

Kristín Ýr Jónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1998. Hún hóf þverflautunám átta ára gömul í Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar þar sem Guido Bäumer var kennari hennar. Árið 2011 færði hún sig yfir í Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi þaðan vorið 2018 undir handleiðslu Áshildar Haraldsdóttur. Kristín hefur tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum hérlendis og erlendis. Árið 2014 spilaði hún einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fernum jólatónleikum hennar og var á árunum 2014-2017 meðlimur í Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í mars 2018 spilaði hún einleik með Sinfóníuhljómsveit Menntaskóla í tónlist og sumrin 2017 og 2019 spilaði hún með norrænu ungsveitinni Orkester Norden. Hún stundar nú nám við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn undir handleiðslu Ullu Miilmann, fyrsta flautuleikara Dönsku útvarpshljómsveitarinnar.