Lise de la Salle
Píanóleikari
Franski píanóleikarinn Lise de la Salle kom fyrst fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2010 þegar hún var aðeins 21 árs að aldri. Hún lék þá tvo af helstu píanókonsertum 20. aldarinnar undir stjórn Ilans Volkov og hlaut mikið lof fyrir.
Lise de la Salle fæddist í Cherbourg í Normandí árið 1988 og hóf píanónám aðeins fjögurra ára gömul. Þegar hún var níu ára spilaði hún á tónleikum sem útvarpað var á Radio France og ellefu ára hóf hún nám í Tónlistarháskólann í París og var yngsti nemandinn sem hafði hlotið inngöngu í þann fræga skóla. Þar stundaði hún nám hjá Bruno Rigotto og naut einnig leiðsagnar Genevieve Joy Dutilleux. Ung var hún farin að vinna til verðlauna, tólf ára gömul vann hún fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu píanókeppninni í Ettingen í Þýskalandi og fyrstu verðlaun bæði í Evrópukeppni ungra einleikara í París árið 2003 og árið eftir í Alþjóðlegri keppni ungra einleikara sem fór fram í New York. Þrettán ára kom hún fram með Sinfóníuhljómsveitinni í Avignion og lék þá píanókonsert nr. 2 eftir Beethoven og sama ár hélt hún sína fyrstu stóru tónleika í París í Louvre-safninu. Ferill hennar sem alþjóðlegur konsertpíanisti fór því snemma á flug.
Síðan þá hefur hún komið fram í öllum helstu tónleikahúsum veraldar og með þekktum hljómsveitum í Bandaríkjunum, Evrópu og víða um Asíu. Hún hefur einnig leikið undir stjórn fjölda heimsþekktra stjórnenda. Hún hefur ánægju af því að kenna masterklassa og gerir það gjarnan þar sem hún heldur tónleika.
Lise de la Salle hefur hljóðritað fyrir frönsku útgáfuna Naïve og hafa útgáfur hennar hlotið einróma lof og verið verðlaunaðar.