EN

Ludovic Morlot

Hljómsveitarstjóri

Ludovic Morlot hefur nýlokið störfum sem aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Seattle og er nú heiðursstjórnandi þeirrar hljómsveitar. Samstarf þeirra vakti heimsathygli, en undir hans stjórn hlaut sveitin fimm Grammy-verðlaun auk þess sem tímaritið Gramophone valdi hana hljómsveit ársins 2018. Meðal þess sem hæst bar var frumflutningur á Become Ocean eftir John Luther Adams og flutningur á tónlist franska meistarans Henri Dutilleux. Morlot hefur meðal annars stjórnað Philadelphia-hljómsveitinni, Fílharmóníusveitinni í Los Angeles, Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar og Fílharmóníusveitinni í Bergen. 

Morlot hóf feril sinn sem fiðluleikari en nam síðan hljómsveitarstjórn við Konunglegu akademíuna í Lundúnum þar sem hann var skólabróðir Rumons Gamba, fyrrum aðalstjórnanda SÍ. Hann var kosinn heiðursfélagi Konunglegu akademíunnar 2007 í virðingarskyni við framlag hans til tónlistarinnar.