EN

María Konráðsdóttir

Einsöngvari

María Konráðsdóttir sópran lauk burtfararprófi á klarínett árið 2007 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem Kjartan Óskarsson var kennari hennar. Ári síðar hóf hún söngnám hjá Þórunni Guðmundsdóttur við sama skóla þar sem hún var í tvö ár. Eftir það hélt María til Berlínar og lauk bakkalárgráðu frá Listaháskólanum þar í borg sumarið 2015, þar sem kennarar hennar voru m.a. Carola Höhn, Hendrik Heilmann og Eric Schneider. Hún lauk síðan meistaragráðu í ljóða- og óratoríusöng frá sama skóla vorið 2018.

María hefur komið fram á fjölda tónleika bæði í Þýskalandi og hérlendis og sungið á hátíðum á borð við Sumartónleika í Skálholti, Reykjavík Early Music Festival og Þjóðlagahátíð á Siglufirði. María hefur lagt sérstaka rækt við tónlist fyrri alda og hefur sungið með barokksveitum á borð við Lautten Compagney í Berlín og Barokkbandið Brák.

Hún hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir söng sinn, fékk til dæmis þrenn verðlaun í International Perotti Singing Competition sem haldin var í Þýskalandi árið 2015.

Árið 2020 var María valin úr hópi umsækjenda til að taka þátt í námskeiðum og tónleikum á vegum International Bachakademie í Stuttgart þar sem hún vann með Dame Emmu Kirkby, Peter Harvey, Hans Christoph Rademann o.fl. María starfaði sem raddþjálfari við Drengjakór Dómkirkjunnar í Berlín árin 2016 til 2019 og er nú kórstjóri Barnakórs Seltjarnarneskirkju. María hefur hlotið mikið lof fyrir bjarta, tæra og forkunnarfagra rödd samhliða fágaðri en tjáningarríkri túlkun.