EN

Marita Sølberg

Einsöngvari

Norska sópransöngkonan Marita Sølberg hefur lagt áheyrendur að fótum sér undanfarin ár, bæði austan hafs og vestan. „Hún er ógleymanleg Mimì í hæsta alþjóðlega flokki“, sagði rýnir Opera News um söng hennar í La bohème í Ósló, en hún hefur einnig sungið við hátíðirnar í Salzburg og Glyndebourne auk þess sem hún sló í gegn í Vínaróperunni, Covent Garden og La Fenice í Feneyjum. Annar norskur gagnrýnandi skrifaði að rödd hennar væri „algerlega stórkostleg, svo innileg og blæbrigðarík að hún gæti fengið stein til að hrífast með“.

Sølberg lærði við Norsku tónlistarakademíuna í Ósló og var fastráðin við óperuhúsið í Stuttgart í Þýskalandi frá 2006–2008. Hún hefur unnið til margra verðlauna og viðurkenninga, varð meðal annars hlutskörpust í Queen Sonja-söngkeppninni í Ósló árið 2001 og hlaut þriðju verðlaun í Belvedere-keppninni í Vínarborg árið 2004. Meðal þeirra hljómsveita sem hún hefur sungið með má nefna Orchestre de Paris, BBC-sinfóníuhljómsveitina og Fílharmóníusveitina í Ósló.