EN

Martin Grubinger

Slagverksleikari

„Töframaður slagverksins“, sagði einn gagnrýnandi um austurríska slagverkssnillinginn Martin Grubinger, sem hefur verið meðal þeirra fremstu í sínu fagi í tvo áratugi. Grubinger er fæddur í Salzburg og lærði við Mozarteum-háskólann þar í borg sem og við Bruckner-tónlistarháskólann í Linz. Hann vakti ungur athygli fyrir glæsilega frammistöðu sína í alþjóðlegum keppnum, meðal annars í EBU-tónlistarkeppninni í Noregi. Hann var staðarlistamaður í Gewandhaus í Leipzig á árunum 2008–2009 og hefur síðar gegnt sömu stöðu m.a. hjá Camerata Salzburg og við Konzerthaus í Vínarborg.

Grubinger er fastagestur hjá fremstu hljómsveitum heims, meðal annars Fílharmóníusveitunum í Berlín, Vínarborg og Los Angeles, og Deutsche Grammophon gefur út plötur hans sem hafa náð metsölu. Þá leiðir hann sína eigin slagverkssveit, sem ber nafnið Percussive Planet Ensemble. Hann hefur pantað fjölda nýrra verka, meðal annars eftir Friedrich Cerha, Avner Dorman og Tan Dun. Grubinger frumflutti nýverið nýjan slagverkskonsert Daníels Bjarnasonar, sem er pantaður í sameiningu af Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar og Sinfóníuhljómsveit Íslands.