EN

Michelle DeYoung

Einsöngvari

Bandaríska mezzósópransöngkonan Michelle DeYoung er þrefaldur Grammy-verðlaunahafi og nýtur virðingar víða um heim fyrir túlkun sína. Hún hóf feril sinn við Metropolitan óperuna í New York, þar sem hún vann prufusöng ung að árum. Hún hefur síðan sungið við flest stóru óperuhús heimsins, meðal annars við Bayreuth-hátíðina, Staatsoper í Berlín, Lyric Opera í Chicago, Parísaróperuna og á Salzburgarhátíðinni.

Meðal helstu hlutverka hennar eru Fricka og Sieglinde í Niflungahring Wagners, Kundry í Parsifal, og Judith í Kastala Bláskeggs eftir Bartók. Hún söng hlutverk Dídóar í hljóðritun Sir Colin Davis á Trjóumönnunum eftir Berlioz, sem hlaut tvenn Grammy-verðlaun árið 2001. Auk þess hefur hún meðal annars sungið á hljóðritun af sinfóníu nr. 3 eftir Mahler með Sinfóníuhljómsveitinni í San Francisco undir stjórn Michaels Tilson Thomas. Hún hefur einnig sungið allnokkuð af nýrri tónlist, meðal annars eftir John Adams og Elliott Carter.

Meðal þeirra hljómsveita sem Michelle DeYoung hefur sungið með má nefna Fílharmóníusveitina í New York, Sinfóníuhljómsveitirnar í Boston og Chicago, Cleveland-hljómsveitinnia, Fílharmóníusveit Vínarborgar og Concertgebouw-hljómsveitina í Amsterdam. Hún hefur einnig sungið á hátíðunum í Tanglewood, Aspen, Edinborg og Salzburg, svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta er í fyrsta sinn sem Michelle DeYoung syngur á Íslandi.