Mirian Khukhunaishvili
Hljómsveitarstjóri
Georgíski hljómsveitarstjórinn Mirian Khukhunaishvili stundaði nám við Tónlistarháskólann í Tbilisi og síðar við Tónlistarakademíuna í Kraków þaðan sem hann lauk prófi í hljómsveitarstjórn árið 2020. Hann hefur síðan sótt námskeið hjá þekktum hljómsveitarstjórum eins og Fabio Luisi, Klaus Mäkelä og Paavo Järvi og unnið til ýmissa viðurkenninga. Hann varð til að mynda hlutskarpastur í hljómsveitarstjórakeppni Tonhalle Orchester í Zürich 2022–23 og ári síðar hreppti hann fyrstur manna Ringmann Jaross verðlaunin sem þýski hljómsveitarstjórinn Christoph Eschenbach stofnaði til minningar um foreldra sína. Mirian Khukhunaishvili tók þátt í að stofna Ungsveit Tbilisi og er tónlistarstjóri hennar. Hann hefur stjórnað öllum helstu hljómsveitum í heimalandi sínu og einnig ýmsum hljómsveitum í Evrópu, svo sem Konzerthausorchester Berlin, Sinfóníuhljómsveit danska útvarpsins, Sinfóníuhljómsveitinni í Gävle og Rúmönsku útvarpshljómsveitinni. Khukhunaishvili kom fyrst fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á jólatónleikum árið 2022 og hefur síðan stjórnað henni og Ungsveit SÍ allnokkrum sinnum. Hann kenndi hljómsveitarstjórn við Listaháskóla Íslands á árunum 2021–24 og stjórnaði þá einnig kór skólans. Nú í haust tekur Khukhunaishvili við stöðu tónlistarstjóra óperunnar í Wrocław í Póllandi og framundan eru verkefni með Ríkishljómsveitinni í Aþenu, Filarmonica Arturo Toscanini í Parma, Þjóðarhljómsveit Litháens og Sinfóníuhljómsveit Suður-Jótlands, svo eitthvað sé nefnt.