EN

Mirian Khukhunaishvili

Hljómsveitarstjóri

Georgíumaðurinn Mirian Khukhunaishvili hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands við nokkur tækifæri á undanförnum árum, meðal annars á Jólastundum einstakra barna nú í ár sem og 2021 og Jólatónleikum sveitarinnar fyrir rúmu ári síðan. Mirian er nú búsettur á Íslandi en hann hefur nú um tveggja ára skeið kennt hljómsveitarstjórn við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Mirian Khukhunaishvili lauk doktorsnámi í hljómsveitarstjórn frá Tónlistarháskólanum í Kraká í Póllandi árið 2020 og hefur sem hljómsveitarstjóri náð skjótum frama. Hann er meðstofnandi og tónlistarstjóri Æskuhljómsveitarinnar í Tiblisi, höfuðborg heimalands síns og hefur stjórnað henni víða, síðast á Young Euro Classic tónlistarhátíðinni í Berlín á nýliðnu sumri. Þá hefur hann stjórnað nokkrum af helstu hljómsveitum Evrópu og unnið með þekktum tónlistarmönnum á borð við Eliso Virsaladze, Paata Burchuladze, Stuart Skelton, George Gagnidze, Nino Machaidze, Valery Sokolov, Alexander Buzlov, Marie-Pierre Langlamet, Anastasiu Kobekina, Veriko Tschumburidze, og Stathis Karapanos.

Mirian Khukhunaishvili er handhafi verðlauna Paavo Järvihljómsveitarstjóraakademíunnar 2022–23 sem fram fór í Tonhalle tónleikahöllinni í Zürich í nóvember 2022. Er hann fyrsti keppandinn í sögu akademíunnar sem hlýtur hvoru tveggja Paavo Järvi-námsstyrkinn og alþjóðlegu áhorfendaverðlaunin.

Þá var hann nú í september heiðraður af Ringmann - Jaross Award and Development Program for outstanding Musicians sem stofnað var að tilhlutan hljómsveitarstjórans Christophs Eschenbach.