EN

Nils Mönkemeyer

Víóluleikari

„Hann er poppstjarnan meðal víólusnillinga okkar daga“, fullyrðir gagnrýnandi tónlistarvefsins Klassik.com um hinn þýska Nils Mönkemeyer, sem er tvímælalaust einn fremsti víóluleikari sinnar kynslóðar. Undanfarin ár hefur Mönkemeyer hlotið mikið lof fyrir hljómdiska sína hjá Sony Classical, meðal annars upptöku á víólukonserti Waltons. Sá diskur hlaut Þýsku gagnrýnendaverðlaunin 2018 og rýnir BBC Music Magazine jós lofi á „dásamlega tæran“ flutning sem væri til skiptis kraftmikill og angurvær.

Mönkemeyer stundaði fyrst fiðlunám við Tónlistarháskólann í Bremen en skipti yfir á víólu árið 1997. Hann stundaði nám í Hannover, München og Salzburg, meðal annars hjá Christian Pohl og Veroniku Hagen. Meðal verðlauna hans má nefna fyrstu verðlaun í alþjóðlegu Yuri Bashmet-keppninni árið 2006. Hann hefur verið prófessor við Tónlistarháskólann í Dresden frá árinu 2009 og hefur einnig kennt við Tónlistarháskólann í München frá árinu 2011.

Mönkemeyer hefur komið fram með mörgum helstu hljómsveitarstjórum heims og leikið með hljómsveitum á borð við Fílharmóníusveitina í Helsinki, Tonhalle-hljómsveitina í Zürich og Konzerthaushljómsveitina í Berlín. Á nýliðnu tónleikaári lék hann meðal annars í Musikverein í Vínarborg, Concertgebouw í Amsterdam og Wigmore Hall í Lundúnum. Þetta er í fyrsta sinn sem Mönkemeyer leikur á Íslandi.