EN

Hanna Ágústa Olgeirsdóttir

Einsöngvari

Hanna Ágústa Olgeirsdóttir er fædd árið 1996. Hún hóf fiðlunám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar fimm ára gömul, en þar stundaði hún einnig söngnám hjá Birnu Þorsteinsdóttur og Theodóru Þorsteinsdóttur. Haustið 2012 hóf Hanna nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kristni Erni Kristinssyni. Þar tók hún þátt í uppfærslum nemendaóperunnar, ásamt því að vera formaður nemendafélags skólans. Vorið 2016 hlaut Hanna styrk úr Minningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar til náms í Söngskólanum, þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2017. Hanna hefur stundað nám við tónlistarháskólann í Leipzig undir leiðsögn Carolu Guber frá hausti 2017. Í Þýskalandi hefur hún tekið þátt í fjölda uppsetninga og tónleika á vegum skólans sem og utan. Í febrúar 2021 hlaut Hanna styrk úr minningarsjóði Heimis Klemenzsonar.