EN

Paul Lewis

Píanóleikari

Paul Lewis nýtur virðingar sem einn fremsti tónlistarmaður sinnar kynslóðar. Hljóðritanir hans á helstu verkum Beethovens og Schuberts hafa hvarvetna hlotið einróma lof og staðfest stöðu hans sem eins fremsta túlkanda miðevrópskrar tónlistar klassíska tímabilsins. Hann hefur verið útnefndur hljóðfæraleikari ársins af Royal Philharmonic Society og meðal annarra viðurkenninga sem honum hafa hlotnast eru tvenn Edison-verðlaun, þrenn Gramophone-verðlaun og þýsku sem og frönsku (Diapason d'Or de l'Année) gagnrýnendaverðlaunin. Þá hefur Lewis verið heiðraður af nokkrum háskólum og opinberum stofnunum.

Paul Lewis er reglulegur gestur fremstu hljómsveita en meðal þeirra eru Sinfóníuhljómsveitirnar í Boston og Chicago, Lundúnasinfónían, Fílharmóníuhljómsveitin í London, Bæverska útvarpshljómsveitin, NHK-hljómsveitin í Tókýó, fílharmóníuhljómsveitirnar í New York og Los Angeles, Konunglega Concertgebouw-hljómsveitin í Amsterdam, Cleveland-hljómsveitin, Tonhalle-hljómsveitin í Zürich, Gewandhaus-hljómsveitin í Leipzig, Philharmonia í Lundúnum og Mahler-Kammersveitin.

Á þessu starfsári leikur Lewis píanókonserta Beethovens með Melbourne Sinfóníunni, Ríkissinfóníuhljómsveitinni í São Paulo og Konunglegu flæmsku fílharmóníunni í Amsterdam. Meðal annarra gestgjafa hans eru Orchestre de Paris með Daniel Harding, Philharmonia í Lundúnum og Andris Nelsons, Chicago-sinfónían ásamt Manfred Honeck og Bæverska útvarpshljómsveitin undir stjórn Bernards Haitink. Þá heldur hann einleikstónleika í Royal Festival Hall í London, Alice Tully og Carnegie Hall í New York, Musikverein og Konzerthaus í Vínarborg, Théâtre des Champs-Elysées í París, Concertgebouw í Amsterdam og í Philharmonie og Konzerthaus í Berlín. 

Paul Lewis er vinsæll gestur helstu tónlistarhátíða þar á meðal BBC Proms þar sem hann varð fyrstur manna til að leika alla píanókonserta Beethovens á einni og sömu hátíðinni árið 2010.

Paul Lewis lærði hjá  Joan Havill í Guildhall School of Music and Drama í London og sótti síðar einkatíma hjá Alfred Brendel. Hann er listrænn stjórnandi Midsummer Music sem er árleg kammertónlistarhátíð í  Buckinghams-skíri á Englandi. Þá er hann stjórnandi alþjóðlegu píanókeppninnar í Leeds.