EN

Pavel Kolesnikov

Píanóleikari

Rússneski píanistinn Pavel Kolesnikov hefur farið sigurför um heiminn síðustu ár. Hann hefur meðal annars leikið í Carnegie Hall, Wigmore Hall, og í Louvre-safninu í París. Um frumraun hans í Lundúnum sagði The Telegraph að þeir hefðu verið „með minnisstæðari debut-tónleikum sem borgin hefur orðið vitni að um langa hríð“.

Kolesnikov er fæddur í Síberíu og stundaði þar bæði píanó- og fiðlunám um tíu ára skeið þar til hann ákvað að einbeita sér alfarið að píanóinu. Hann lærði við Tónlistarháskólann í Moskvu og síðar við Konunglega tónlistarháskólann í Lundúnum. Hann hlaut fyrstu verðlaun í Honens-píanókeppninni árið 2012 og í framhaldi af því fór ferill hans á flug. Hann hefur haldið einleikstónleika víða um heim og geisladiskar hans fyrir Hyperion hafa hlotið frábæra dóma, en hann hefur meðal annars hljóðritað tónlist eftir Beethoven, Chopin og barokktónskáldið Louis Couperin.