EN

Peter Hanson

Hljómsveitarstjóri og fiðluleikari

Breski fiðluleikarinn og hljómsveitarstjórinn Peter Hanson hefur helgað sig upprunaflutningi tónlistar, allt frá barokktímanum og fram á rómantíska tímabilið en í því felst að andi tónlistarinnar á þeim tíma sem hún var samin er endurvakinn. Hanson hefur starfað sem konsertmeistari í hinni víðfrægu hljómsveit Johns Eliots Gardiner, Orchestre Révolutionnaire et Romantique, í rúman aldarfjórðung. Auk þess hefur hann komið víða fram með þekktum hljómsveitum, sem einleikari, konsertmeistari eða hljómsveitarstjóri — jafnvel allt þrennt í senn. Hann hefur einnig ferðast um Evrópu og Bandaríkin með Missa Solemnis eftir Beethoven og verk eftir Berlioz og Verdi þar sem hann meðal annars kom fram í Carnegie Hall, og hefur stjórnað tónleikum á BBC Proms tónlistarhátíðinni.

Árið 1993 stofnaði Hanson kvartettinn Eroica sem einbeitti sér að flutningi tónlistar á upprunahljóðfæri. Þau vöktu ekki síst athygli fyrir að endurskoða flutning á verkum frá rómantíska tímabilinu, allt frá Beethoven til Debussy. Þau ferðuðust víða, komu fram í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum og voru talin talsvert róttæk í flutningi sínum. Kvartettinn hljóðritaði strengjakvartetta Mendelssohns, Schumanns og Beethovens fyrir Harmonia Mundi í Bandaríkjunum, og hefur einnig gefið út hjá Resonus Classics.

Hanson stýrir Carmel Bach hátíðinni í Kaliforníu þar sem hann hefur gegnt fjölbreyttu hlutverki, kemur fram sem einleikari, stjórnar flutningi kammerverka og hefur verið konsertmeistari á flestum tónleikum hátíðarinnar. Þar eru verk flutt bæði á svokölluð upprunahljóðfæri – þar sem stillt er eftir gamalli stillingu þar sem „litla a“ er 415 Hz – og nútímahljóðfæri þar sem það er 440 Hz. Upprunaflutningur felur auk þess í sér mun meiri snerpu og léttleika en ella, enda eru hljóðfærin þannig að tónninn er grennri og endurómurinn minni en í nútímahljóðfærum.