EN

Peter Oundjian

Hljómsveitarstjóri

Hljómsveitarstjórinn Peter Oundjian er fæddur í Toronto í Kanada en er af ensku og armensku bergi brotinn. Hann stundaði fiðlunám við Royal College of Music í Lundúnum og hjá Ivan Galamian, Itzhak Perlman og Dorothy DeLay við Juilliard-tónlistarskólann. Hann var um 14 ára skeið fyrsti fiðluleikari hins heimskunna Tókýó-strengjakvartetts og kom fram með honum á tónleikum víða um heim, en neyddist til að leggja fiðluna á hilluna vegna þrálátra álagsmeiðsla. Þá hóf hann feril sinn sem hljómsveitarstjóri og gegndi stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í Toronto frá 2004–2018 auk þess sem hann var aðalstjórnandi Royal Scottish National Orchestra um sex ára skeið. Hann leiðir nú hljómsveitarstarf við Yale-háskóla í Bandaríkjunum auk þess sem hann er eftirsóttur gestastjórnandi víða um heim.

Þetta er í þriðja sinn sem Peter Oundjian stjórnar tónleikum í Hörpu. Hann stjórnaði tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2012, þar sem Hilary Hahn lék einleik í fiðlukonserti eftir Mozart og hljómsveitin flutti sinfóníu nr. 11 eftir Dmítríj Shostakovitsj. Hann kom svo aftur hingað til lands með Sinfóníuhljómsveitinni í Toronto árið 2014 og stjórnaði þá meðal annars Sinfónískum dönsum eftir Rakhmanínoff.