EN

Pierre-Laurent Aimard

Píanóleikari

Franski píanóleikarinn Pierre-Laurent Aimard er einn áhugaverðasti tónlistarmaður samtímans. „Stórkostlegur píanóleikari og einstakur hugsjónamaður“, ritaði músíkrýnir The Wall Street Journal. Aimard hefur hlotið nær öll verðlaun sem hugsast getur, meðal annars bæði Grammy- og Gramophone-verðlaun auk þess sem hin virtu Ernst von Siemens-verðlaun féllu honum í skaut árið 2017. Hann hefur hljóðritað fjölda hljómdiska fyrir Deutsche Grammophon og PENTATONE Records og kemur fram með hljómsveitum í fremstu röð. Hann starfar m.a. með Esa-Pekka Salonen, Sir Simon Rattle og Vladimir Jurowski, og hefur verið staðarlistamaður eða haldið sérstakar tónleikaraðir m.a. í Carnegie Hall í New York, Konzerthaus í Vínarborg, Mozarteum í Salzburg og Southbank Centre í Lundúnum. 

Undanfarið ár hefur Aimard ferðast um heiminn með efnisskrár sem bera yfirskriftina „Beethoven og framúrstefnan“ (Beethoven and the Avant-Garde), sem sýna Beethoven í ljósi samtímatónlistar í tilefni þess að 250 ár eru liðin frá fæðingu tónskáldsins. Aimard hefur meðal annars flutt þessa efnisskrá í Fílharmóníusölunum í Berlín og París, í Southbank Centre í Lundúnum og í tónleikaferð um Bandaríkin. Þetta er í fyrsta sinn sem Aimard heldur tónleika á Íslandi.