EN

Rannveig Marta Sarc

Fiðluleikari

Rannveig Marta Sarc er fædd árið 1995 í Slóveníu. Hún hóf fiðlunám 4 ára gömul en árið 2006 flutti hún til Íslands og gerðist nemandi Lilju Hjaltadóttur. Hún lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og stundaði einnig víólunám hjá Þórunni Ósk Marinósdóttur. Rannveig hélt til New York í framhaldsnám við The Juilliard School og lauk þaðan bakkalár- og meistaraprófi með styrk frá The Kovner Fellowship. Helstu kennarar hennar voru Donald Weilerstein, Catherine Cho, Laurie Smukler, ásamt Robert Mealy á barokk-fiðlu.

Rannveig hefur komið fram sem einleikari og kammermúsíkspilari víða um Evrópu, Ameríku og Asíu, meðal annars í Carnegie Hall og Alice Tully Hall. Hún er meðlimur í Kammersvetinni Elju, New York Classical Players og Civic Orchestra of Chicago. Hún hlaut fyrstu verðlaun í TEMSIG- slóvenskri tónlistarkeppni fyrir ungmenni, þriðju verðlaun í New York International Artists Competition og önnur verðlaun í einleikarakeppni Juilliard árið 2018. Hún vann prufuspil fyrir konsertmeistara Juilliard-hljómsveitarinnar og var strengjakvartett hennar valinn í Juilliard’s Honors Chamber Music Program.

Rannveig var sigurvegari í keppninni Ungir einleikarar og lék Sibelius fiðlukonsertinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2014. Hún hefur leikið Prokofiev fiðlukonsert nr. 1 með Slóvensku Filharmóníunni, Tsjajkovskíj fiðlukonsertinn með Bacau “Mihail Jora” filharmóníunni á Ítalíu, Brahms fiðlukonsertinn með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Bruch konsertinn með Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík. Rannveig er ötull flytjandi samtímatónlistar. Sem meðlimur Dúó Freyju frumflutti hún á Myrkum Músíkdögum árið 2020 sex dúó fyrir fiðlu og víólu sem samin voru fyrir dúóið af sex íslenskum konum.

Hún hefur komið fram á tónlistarhátíðum eins og Ravinia’s Steans Music Institute, Taos School of Music, Aspen Music Festival, Kneisel Hall og International Musicians Seminar í Prussia Cove. 

Rannveig hefur hlotið styrki úr minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat, minningarsjoði Kristjáns Eldjárns, tónlistarsjóði Rótarý, Valitor og American Scandinavian Society.