Rannveig Marta Sarc
Fiðluleikari
Rannveig Marta Sarc hóf fiðlunám 4 ára gömul í Slóveníu en 11 ára flutti hún til Íslands og gerðist nemandi Lilju Hjaltadóttur. Hún lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur, Ara Þórs Vilhjálmssonar og sótti víólutíma hjá Þórunni Ósk Marinósdóttur. Rannveig nam við The Juilliard School í New York og lauk þaðan bakkalár- og meistaraprófi með styrk frá The Kovner Fellowship.
Rannveig hefur verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Slóvensku filharmóníunni, Bacau “Mihail Jora” filharmóníunni á Ítalíu, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins (Ungfóníu), Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík og Orchestra matutina. Á vettfangi kammertónlistar hefur hún komið fram á tónlistarhátíðum í Ravinia, Prussia Cove, Aspen og NEXUS Chamber Music Chicago. Hún er meðlimur í Kammersveitinni Elju, New York Classical Players og spilar reglulega í Chicago sinfóníuhljómsveitinni. Rannveig hefur hlotið styrki úr minningarsjóðum Jean-Pierre Jacquillat og Kristjáns Eldjárns, tónlistarsjóðum Rótarý, Valitor og American Scandinavian Society. Hún hlaut Luminarts Classical Strings Fellowship og fyrstu verðlaun “Nerenberg Award” frá Musicians Club of Women í Chicago.
Rannveig er ötull flytjandi samtímatónlistar. Sem meðlimur Dúó Freyju gaf hún út plötu með sex dúettum fyrir fiðlu og víólu eftir íslenskar konur og var hópurinn tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022. Sama ár var Rannveig valin Bjartasta vonin í flokki sígildrar- og samtímatónlistar.