EN

Richard Kaufman

Hljómsveitarstjóri

 

Bandaríski hljómsveitarstjórinn og fiðluleikarinn Richard Kaufman hefur um langt árabil helgað tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarp starfskrafta sína og stjórnað kvikmyndatónlist og sígildri tónlist í tónleikasölum og á hljómplötum. Hann hefur í 26 ár verið aðalstjórnandi léttari tónlistar hjá Orange County Pacific-sinfóníunni og heiðursstjórnandi Dallas-sinfóníunnar í sömu tónlistargrein. Þá stjórnar hann nú, ellefta árið í röð, nýrri og eldri kvikmyndatónlist hjá Chicago-sinfóníunni.

Kaufman kemur víða fram sem gestastjórnandi bæði innan og utan heimalandsins, þar á meðal í Cleveland, San Diego, Indianapolis og Utah - hjá Konunglegu Liverpool-fílharmóníunni og Konunglegu skosku þjóðarhljómsveitinni svo dæmi séu tekin. Í maí 2015 þreytti hann frumraun sína sem hljómsveitarstjóri hjá Boston Pops-hljómsveitinni þegar hann hljóp í skarðið fyrir John Williams og árið eftir bauð Willims honum að deila með sér stjórnendapallinum á hinu árlega John Williams-kvikmyndakvöldi í Tanglewood.

Richard Kaufman stjórnar reglulega flutningi á lifandi tónlist á kvikmyndasýningum. Meðal þessara kvikmynda eru Amadeus, E.T., Galdrakarlinn í Oz , Casablanca, Psycho, Fantasia, Pirates of the Caribbean 1 og 2, Star Trek sem og Borgarljós Chaplins og fleiri þöglar myndir. Á Listahátíðinni í Virginíu 2014 stjórnaði Kaufman heimsfrumflutningi á tónlist Stewarts Copeland við klassísku þöglu myndina um Ben Hur frá 1925 og endurtók leikinn m.a. með Chicago-sinfóníunni, Pacific-sinfóníunni og Fílharmóníuhljómsveitinni í Luxembourg.

Margir þekktir listamenn hafa notið krafta Kaufmans sem hljómsveitarstjóra, þar á meðal Andy Williams, Herb Alpert, James Galway og The Beach Boys. Sem fiðluleikari hefur hann unnið með John Denver, Burt Bacharach og Ray Charles svo nokkrir séu nefndir. Þá hefur hann verið tilnefndur til margra verðlauna, þar á meðal Emmy- og Grammy-verðlauna en þau síðarnefndu hlaut hann árið 1993 í flokknum „Best Pop Instrumental Performance" fyrir hljóðritun með Sinfóníuhljómsveitinni í Nürnberg.