Samuel Lee
Hljómsveitarstjóri
Samuel Lee er aðstoðartónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Cincinnati og hlaut fyrstu verðlaun í hinni virtu Malko-keppni fyrir unga hljómsveitarstjóra í Kaupmannahöfn 2024. Með verðlaununum fylgja stjórnunarsamningar við 24 fremstu sinfóníuhljómsveitir heims ásamt því að vinna undir handleiðslu Fabio Luisi, aðalhljómsveitarstjóra Dönsku ríkissinfóníunnar, næstu þrjú árin. Lee hefur áður unnið fyrstu verðlaun í BMI International Conducting Competition í Búkarest og International Conducting Competition í Taipei.
Lee hefur á ferli sínum stjórnað mörgum virtum hljómsveitum, þar á meðal Konzerthausorchester Berlin, Bamberger Symphoniker, Hamburger Camerata í Elbphilharmonie, Leipziger Symphonieorchester í Gewandhaus, Symphoniker Hamburg, Stuttgarter Philharmoniker, Nürnberger Symphoniker, Brandenburgisches Staatsorchester Frankfurt (Oder) og Tokyo fílharmóníunni. Þá hefur hann einnig stjórnað Seoul fílharmóníunni, Kóresku þjóðarsinfóníuhljómsveitinni og KBS sinfóníuhljómsveitinni í Suður-Kóreu.
Lee hefur starfað sem aðstoðarmaður Cristian Măcelaru við WDR Sinfonieorchester í Köln, München og Salzburg og aðstoðað Vladimir Jurowski hjá London Philharmonic Orchestra. Hann hefur sótt meistaranámskeið hjá Daniele Gatti, Riccardo Muti, Neeme Järvi og Markus Stenz og dýpkað þekkingu sína á hljómsveitarstjórn undir leiðsögn þeirra. Tónleikarnir í kvöld eru hans fyrstu með Sinfóníuhljómsveit Íslands.