EN

Santtu-Matias Rouvali

Hljómsveitarstjóri

Finnski hljómsveitarstjórinn Santtu-Matias Rouvali (f. 1985) er einn eftirsóttasti stjórnandi heims af yngri kynslóðinni. Hann stundaði nám í hljómsveitarstjórn hjá Leif Segerstam við Sibeliusar-akademíuna og lauk prófi þaðan árið 2009. Áður hafði hann getið sér gott orð sem slagverksleikari og bar m.a. sigur úr býtum í Eurovision-keppni ungra einleikara árið 2004. Rouvali er af tónlistarfjölskyldu kominn, því að báðir foreldrar hans leika með Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti. Rouvali er aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Tampere og frá hausti 2017 hefur hann verið aðalstjórnanda Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg. Þá var nýlega tilkynnt að hann yrði annar tveggja aðalgestastjórnenda hljómsveitarinnar Fílharmóníu í Lundúnum. Meðal annarra hljómsveita sem Rouvali hefur stjórnað má nefna Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar, Fílharmóníuhljómsveitina í Ósló og Þýsku sinfóníuhljómsveitinni (DSO) í Berlín. Þá er hann fastur gestur á sumartónleikaröð við Concertgebouw í Amsterdam og á Queensland-tónlistarhátíðinni í Ástralíu. Rouvali hefur einnig stjórnað óperum, til dæmis Carmen og Töfraflautunni.

Rouvali hefur áður komið tvívegis til Íslands. Hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveitinni á tónleikum í febrúar 2015, en auk þess foræfði hann hljómsveitina fyrir landa sinn Hannu Lintu haustið 2011 þegar undirbúinn var flutningur á öllum sinfóníum Beethovens.