EN

Sascha Goetzel

Hljómsveitarstjóri

Austurríkismaðurinn Sascha Goetzel (f. 1970) hefur skapað sér nafn sem hljómsveitarstjóri, fiðluleikari og útsetjari. Hann stundaði tónlistarnám við Tónlistarháskólann í Graz og síðar við Juilliard-tónlistarskólann í New York. Helstu lærifeður hans í hljómsveitarstjórn voru Seiji Ozawa, Zubin Metha og Riccardo Muti. Þá stundaði hann meistaranám hjá Jorma Panula við Sibeliusarakademíuna. Sem fiðluleikari var hann um árabil lausráðinn hjá Vínarfílharmóníunni. 

Sascha Goetzel var aðalstjórnandi Borusan Istanbul fílharmóníuhljómsveitarinnar frá 2008–2020. Stjórnaði hann hljómsveitinni á fjölmörgum markaðshljóðritum og á tónleikum heima og erlendis. Kom hljómsveitin meðal annars fram á Salzburgarhátíðinni, PROMS – tónlistarhátíð Breska ríkisútvarpsins, Hong Kong listahátíðinni í Théâtre des Champs-Élysées í París, Royal Concertgebouw í Amsterdam sem og í Musikverein og Konzerthaus í Vínarborg. 

Sem gestastjórnandi er hann tíður gestur hjá NHKsinfóníuhljómsveitinni í Tókýó Fílharmóníuhljómsveitunum í Lundúnum, München og Dresden, Lyric-Nancy-sinfóníunni, Kammersveitinni í París, Þjóðarhljómsveitinni í Bordeaux, Fílharmóníuhljómsveitinni í Dresden, frönsku og belgísku þjóðarhljómsveitunum, Sinfóníuhljómsveitinni í Ísraael, sinfóníuhljómsveitunum í Luxemborg, Strassborg og Vancouver og á Abu Dhabi tónlistarhátíðinni. Meðal nafntogaðra einsöngvara og einleikara sem Goetzel hefur starfað með eru Daniil Trifonov, Beatrice Rana, Yuja Wang, Rudolf Buchbinder, Murray Perahia, Vadim Repin, Maxim Vengerov, Placido Domingo, José Carreras, Anna Netrebko, Renée Fleming, Bryn Terfel og Piotr Beczała. 

Sem óperustjórnandi hefur Goetzel mundað tónsprotann í húsum á borð við Alþýðuóperuna í Vín, Marinsky leikhúsið í Sankti-Pétursborg, Óperuna í Zürich, Anger-Nantes-óperuna, Montpelier-óperuna og óperuna í Rennes svo nokkrar séu nefndar. Túlkun hans á Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart í Vínaróperunni árið 2014 vakti mikla athygli og hefur hann stjórnað fjölmörgum sýningum við húsið síðan þá, þar á meðal Mozart-óperunum Don Giovanni og Töfraflautunni, Rigoletto eftir Verdi og Rósariddaranum eftir Richard Strauss. Síðan 2019 hefur Sascha Goetzel verið aðalgestastjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Sofíu, höfuðborgar Búlgaríu.