EN

Sergei Krylov

Fiðluleikari

 

Rússneski einleikarinn Sergei Krylov hefur fengið lof víða um heim fyrir glæsilegan leik sinn. Hann hefur komið fram með fjölda virtra hljómsveita, til dæmis Staatskapelle Dresden, Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín, Fílharmóníuhljómsveitunum í Lundúnum og Sankti Pétursborg, Filarmonica della Scala og NHK-sinfóníuhljómsveitinni í Tókýó. Sem ungur tónlistarmaður var hann undir verndarvæng Mstislav Rostropovitsj og hafði það mótandi áhrif á hann. Aðrir samverkamenn í tónlistinni hafa ekki síður verið áhrifavaldar, til dæmis Mikhail Pletnev, Valery Gergíev, Vladimir Jurowski, Vladimir Ashkenazy og Zoltán Kocsis.

Krylov hefur haldið tónleika í helstu tónleikasölum heims, meðal annars í Berlínarfílharmóníunni, Musikverein og Konzerthaus í Vínarborg, Salle Pleyel í París, La Scala í Mílanó og Suntory Hall í Tókýó. Meðal hápunkta síðasta starfsárs voru tónleikar með Konzerthaus-hljómsveitinni í Berlín og Skosku þjóðarhljómsveitinni, og tónleikaferð um Evrópu með Kammerhljómsveit Litháens, þar sem Krylov bæði stjórnaði og lék einleik, en hann hefur verið aðalstjórnandi sveitarinnar frá árinu 2008. Í fyrra kom út hjá Deutsche Grammophon diskur þar sem Krylov leikur Árstíðir Vivaldis með sveitinni, og fyrr á þessu ári kom út einleiksdiskur hans með 24 kaprísum Paganinis.

Krylov fæddist í Moskvu og er fjöldi tónlistarmanna í fjölskyldu hans; faðir hans var virtur fiðlusmiður og móðir hans píanóleikari. Hann hóf fiðlunám fimm ára gamall og ári síðar hélt hann sína fyrstu tónleika. Krylov hreppti ungur fyrstu verðlaun í virtum alþjóðlegum keppnum, til dæmis Stradivarius-keppninni í Cremona og Fritz Kreisler-keppninni í Vínarborg. Hann hefur frá árinu 2012 gegnt stöðu prófessors í fiðluleik við Tónlistarháskólann í Lugano í Sviss.