EN

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir

Einsöngvari

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran lauk söng- og píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og óperudeild, Artist Diploma og meistaragráðu frá Royal College of Music í London. Hún syngur reglulega í óperum, óratoríum og á ljóðatónleikum hér á landi og erlendis. Hún hefur sungið óperuhlutverk meðal annars við Glyndebourne-óperuna, English National Opera, English Touring Opera og Íslensku óperuna þar sem hún söng m.a. hlutverk Rosinu í Rakaranum í Sevilla og Floru Bervoix í La traviata. Þá hefur hún komið fram sem einsöngvari m.a. með Mótettukórnum, Dómkórnum, Kór Langholtskirkju, Óperukórnum í Reykjavík, Karlakór Reykjavíkur og Fóstbræðrum.

Sigríður Ósk hefur sungið í tónleikasölum eins og Royal Albert Hall, King’s Place og Cadogan Hall í London en þar söng hún ásamt Dame Emma Kirkby og var tónleikunum útvarpað á Classic FM. Hún er meðlimur í barokksveitinni Symphonia Angelica, sem hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík 2016 og á Norrænu tónleikunum Concerto Grosso-Viking Barokk sem fóru fram í Konserthúsinu í Ósló, Berwaldhallen í Stokkhólmi og Musiikkitalo í Helsinki. Hún söng einnig í Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2017 og 2018. Sigríður Ósk hefur fjórum sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna.