EN

Simos Papanas

Einleikari

Gríski fiðluleikarinn Simos Papanas fæddist í Þessalóníku árið 1979. Hann stundaði framhaldsnám í fiðluleik, tónsmíðum og stærðfræði við Nýja tónlistarháskólann í Þessalóníku, Oberlin-tónlistarháskólann og Yale-háskóla. Meðal kennara hans voru Petar Arnaoudov, Taras Gabora og Marilyn McDonald.

Papanas hefur komið fram sem einleikari með fjölda hljómsveita, meðal annars Staatskapelle Dresden, Kammersveitunum í Basel og Zürich, Sinfóníuhljómsveitinni í Prag, Ríkishljómsveitunum í Aþenu og Þessalóníku, Grísku útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveitinni í München. Þá hefur hann hljóðritað meðal annars fyrir Deutsche Grammophon, BIS og Centaur. Papanas hefur komið fram m.a. á tónlistarhátíðunum í Verbier (Sviss), Schleswig-Holstein (Þýskalandi), alþjóðlegu fiðluhátíðinni í Sankti Pétursborg og á tónleikum í Carnegie Hall, Palau de la Musica í Barcelona og Semperoper í Dresden. Tónsmíðar hans hafa verið fluttar víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum, Kanada, Perú, Japan og fjölda Evrópulanda. Papanas hefur starfað sem konsertmeistari Ríkishljómsveitarinnar í Þessalóníku frá árinu 2003.