EN

Skólakór Kársness

Skólakór Kársness var stofnaður árið 1976 og hefur frá upphafi spilað stóran part í skólastarfi Kársnesskóla. Sönghefðin er rík í Kársnesskóla en allir nemendur skólans koma að kórastarfinu á sínum námsferli. Alls eru hátt í 400 börn í kór á hverju ári en þúsundir barna hafa farið í gegnum kórastarfið í gegnum tíðina. Skólakór Kársness tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum, allt frá skólasamkomum til stærri verkefna hérlendis og erlendis.

Kársneskórarnir hafa gefið út tónlist og tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum. Alla tíð hefur markmið kórastarfsins verið að kynna íslenska tónlist. Jafnt hérlendis sem erlendis hafa mörg verk verið samin sérstaklega fyrir kórinn. Kórinn hefur einnig ferðast víða og tekið þátt í kóramótum og menningarhátíðum fyrir Íslands hönd.

Þórunn Björnsdóttir var stjórnandi kórsins til 40 ára en hún og Álfheiður Björgvinsdóttir sameinuðu krafta sína árið 2015 áður en Álfheiður tók við keflinu. Álfheiður Björgvinsdóttir stundaði nám við Listaháskóla Íslands og lauk bakkalárgráðu í skapandi tónlistarmiðlun árið 2012 og meistaraprófi í Listkennslu frá LHÍ 2015. Hún hefur starfað sem kórstjóri og tónmenntakennari í Kársnesskóla frá útskrift. Álfheiður stofnaði Barnakórinn við Tjörnina í byrjun ársins 2013 og er þar enn stjórnandi. Hún er einnig söngvari í Sönghópnum við Tjörnina.