Sönghópurinn Hljómeyki
Sönghópurinn Hljómeyki hélt sína fyrstu tónleika í Norræna húsinu 23. mars árið 1974. Hljómeyki skipaði sér þegar í fremstu röð íslenskra kóra og hefur á þeim áratugum sem liðnir eru flutt ógrynni verka af margvíslegu tagi — allt frá fjölradda kórmúsík endurreisnarinnar til íslenskrar rokktónlistar samtímans. Fyrstu árin starfaði hópurinn undir stjórn Rutar L. Magnússon og flutti þá aðallega veraldlega tónlist frá ýmsum löndum. Árið 1986 tók kórinn upp samvinnu við Sumartónleika í Skálholti og hefur síðan lagt mikla áherslu á flutning nýrrar íslenskrar tónlistar. Í Skálholti hefur Hljómeyki frumflutt tugi verka eftir mörg helstu tónskáld landsins og kórinn tekur iðulega þátt í öðrum hátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist, svo sem Myrkum músíkdögum og Norrænum músíkdögum.
Á ferli sínum hefur Hljómeyki nokkrum sinnum tekið þátt í óperuflutningi og má þar nefna Dídó og Eneas eftir Purcell, Orfeus og Evridísi eftir Gluck, Orfeo eftir Monteverdi, La Clemenza di Tito eftir Mozart, Carmen eftir Bizet og Porgy og Bess eftir Gershwin. Síðastnefndu verkin söng kórinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands en Hljómeyki hefur komið reglulega fram með hljómsveitinni á undanförnum árum, síðast í flutningi sveitarinnar á Hringadróttinssinfóníu Howards Shore. Þá hefur Hljómeyki komið fram með hljómsveitunum Todmobile, Sólstöfum, Skálmöld og Dúndurfréttum ásamt því að vera í reglulegu samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Kammerkór Norðurlands.
Hljómeyki hefur gefið út sex geisladiska, með verkum eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur, Jón Nordal og Sigurð Sævarsson. Hljómeyki hefur einnig flutt stór rússnesk verk meðal annars Náttsöngva Rakhmaninovs, Kórkonsert Schnittkes, Púskinsveig eftir Sviridov og nú síðast stórvirkið Path of Miracles eftir Joby Talbot.
Stjórnandi Hljómeykis er Þorvaldur Örn Davíðsson.