Söngsveitin Fílharmónía
Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð árið 1960 af dr. Róberti Abraham Ottóssyni og áhugafólki um flutning sígildra kórverka. Fyrsta verkefni kórsins var Carmina Burana eftir Carl Orff sem flutt var með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrsta aldarfjórðunginn starfaði kórinn náið með hljómsveitinni og með henni frumflutti hann fjölda kórverka á Íslandi. Í gegnum árin hefur kórinn flutt fjölbreytta tónlist frá ýmsum tímabilum, allt frá sígildum kórverkum til léttari tónlistar af ýmsu tagi. Á undaförnum árum hefur Söngsveitin Fílharmónía regluleg tekið þátt í tónleikum á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, s.s. „Klassíkinni okkar“, Sálumessu Brahms, Carmina burana eftir Carl Orff og kvikmyndatónleikum með myndinni Harry Potter og fanginn frá Azkaban svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur kórinn einnig komið fram með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Ungsveit Sinfóníunnar og flutt Mozart requiem og 9. Sinfóníu Beethovens. Söngsveitin Fílharmónía hefur á undaförnum árum flutt viðamikil kórverk ásamt einsöngvurum og hljómsveitum, m.a. Sálumessu Verdis í tilefni af 60 ára afmæli kórsins, Krýningarmessu Mozarts í Salzburg, Jólaóratoríuna eftir J.S Bach, Messu heilagrar Sesselju eftir Joseph Haydn og síðastliðið vor flutti kórinn Stabat Mater eftir Dvořák. Kórinn hefur á undanförnum árum tekið þátt í flutningi tónlistar úr kvikmyndunum um Hringadróttinssögu á kvikmyndatónleikum, tekið þátt í flutningi á tónlist úr söngleikjum og komið fram á stórtónleikum með tenórstjörnunni Andrea Boccelli. Þá hefur kórinn tekið þátt í kórakeppnum á erlendri grund og hlotið viðurkenningar fyrir, síðast í Salzburg sumarið 2022. Söngsveitin Fílharmónía hefur á undanförnum árum unnið að upptökum á íslenskri kórtónlist og gefið út á helstu tónlistarstreymisveitur. Í bígerð er að gefa út fleiri verk í flutningi kórsins á næstu misserum. Stjórnandi Söngsveitarinnar Fílharmóníu er Magnús Ragnarsson