EN

Stefan Dohr

Einleikari

Þýski hornleikarinn Stefan Dohr hefur verið kallaður „konungur hornsins“ enda var hann aðeins 25 ára þegar hann var valinn í stöðu fyrsta hornleikara í Fílharmóníusveit Berlínar. Þar hefur hann starfað frá árinu 1993 og er ekki ofsögum sagt að hann sé goðsögn meðal málmblástursleikara. Auk þess að starfa með einni fremstu hljómsveit heims er Dohr einnig eftirsóttur einleikari.

Stefan Dohr hefur komið fram sem einleikari með mörgum helstu hljómsveitarstjórum heims, m.a. Simon Rattle, Claudio Abbado, Daniel Barenboim og Bernard Haitink, og hefur leikið með Fílharmóníusveit Berlínar, Mahler-kammersveitinni, Fílharmóníusveit Los Angeles og Sænsku útvarpshljómsveitinni, svo aðeins nokkrar séu nefndar. Dohr hefur pantað og frumflutt fjölda nýrra tónverka fyrir hljóðfæri sitt, eftir meðal annars Toshio Hosokawa, Wolfgang Rihm og Hans Abrahamsen.

Dohr stundaði nám í Essen og Köln og hóf atvinnuferil sinn nítján ára gamall sem fyrsti hornleikari við Óperuhúsið í Frankfurt. Hann hefur einnig gegnt leiðandi stöðum við Fílharmóníusveitina í Nice, Þýsku sinfóníuhljómsveitina og hljómsveitirnar sem starfa við tónlistarhátíðirnar í Bayreuth og Luzern. Hann er gestaprófessor við Royal College of Music og Sibeliusar-akademíuna í Helsinki, auk þess sem hann er fastráðinn kennari við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín.