EN

Tamara Stefanovich

Píanóleikari

Tamara Stefanovich er einn helsti flytjandi samtímatónlistar fyrir píanó í heiminum í dag. Breska dagblaðið The Guardian valdi einleikstónleika hennar í Lundúnum meðal þriggja hápunkta tónlistar á árinu 2019 og sagði meðal annars: „Þessir tónleikar voru stórkostlegt afrek, bæði hvað snertir ímyndunarafl, tónlistargáfur og tæknilega yfirburði.“

Stefanovich hefur komið fram m.a. í Carnegie Hall, Berlínarfílharmóníunni, og í Wigmore Hall og Royal Albert Hall í Lundúnum. Þá hefur hún leikið á tónlistarhátíðunum í Salzburg og Ravenna og á Beethovenfest í Bonn. Meðal hljómsveita sem hún hefur leikið einleik með má nefna Sinfóníuhljómsveitirnar í Cleveland og Chicago, Lundúnasinfóníuna og Deutsche Kammerphilharmonie Bremen. Hún hefur leikið inn á geisladiska fyrir Deutsche Grammophon, m.a. konsert Bartóks fyrir tvö píanó undir stjórn Pierre Boulez, en nýjasta hljóðritun hennar er píanókonsert eftir Hans Abrahamsen. Íslenskir tónleikagestir muna eftir því þegar Stefanovich hljóp í skarðið og lék krefjandi einleikskonsert Ligetis með Sinfóníuhljómsveit Íslands með aðeins örfárra daga fyrirvara árið 2014, þá komin átta mánuði á leið.