EN

Ted Sperling

Hljómsveitarstjóri

Ted Sperling hefur starfað í heimi söngleikjanna með afburðaárangri í yfir þrjátíu ár. Sperling er einkar fjölhæfur og samhliða því að munda tónsprotann er hann leikstjóri, útsetjari, píanó-, fiðlu- og víóluleikari. Hann er listrænn stjórnandi MasterVoices og aðalhljómsveitarstjóri Westchester-fílharmóníusveitarinnar. Sperling hlaut Tony and Drama Desk-verðlaunin fyrir útsetningu sína á The Light in the Piazza og Ted Shen Family Foundation-verðlaunin fyrir framlag sitt til söngleikjatónlistar. Meðal söngleikja sem hann hefur stjórnað má nefna: Fiðlarann á þakinu, Konunginn og mig, Gæja og píur, og Vesalingana. 

Sperling hefur látið til sín taka í kvikmyndageiranum og stjórnaði tónlistinni í myndunum The Manchurian Candidate og Everything Is Illuminated ásamt því að leikstýra stuttmyndinni Love Mom sem sýnd hefur verið á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Ted Sperling stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrst í Fantasíu Disneys haustið 2016.