EN

The King's Singers

Sönghópur

Breski sextettinn The King's Singers er einn frægasti sönghópur heims. Hann hefur starfað óslitið allt frá árinu 1968 þegar sex söngvarar, nýútskrifaðir frá King's College í Cambridge, ákváðu að stofna lítinn sönghóp: tveir kontratenórar, einn tenór, tveir barítónar og bassi. Verkefnavalið var óvenju breitt, allt frá miðaldasöngvum til dægurlaga, og með hrífandi framkomu og eftirminnilegum raddsetningum komst hópurinn fljótt í fremstu röð.

The King's Singers hafa sungið inn á yfir 100 plötur sem margar hafa náð metsölu, og halda um 150 tónleika á ári hverju. Þeir hafa sungið í öllum helstu tónleikahúsum heims, meðal annars í Carnegie Hall, Óperuhúsinu í Sidney og Concertgebouw í Amsterdam. Hópurinn hefur unnið til tveggja Grammy-verðlauna og var valinn í úrvalshóp („Hall of Fame“) tímaritsins Gramophone. The King's Singers hafa einnig pantað ný verk af ýmsum toga, meðal annars eftir György Ligeti, Sir John Tavener, Sally Beamish og Eric Whitacre. Hópurinn hefur tvívegis sungið á Íslandi, fyrst á Listahátíð í Reykjavík 1989 og síðan í Hörpu og Skálholti 2015, en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.