EN

Thomas Adès

Hljómsveitarstjóri

Thomas Adès hefur um áratuga skeið verið meðal virtustu tónskálda Bretlands auk þess að vera afburða hljómsveitarstjóri og píanóleikari. Hann vakti fyrst verulega athygli þegar hann vann til verðlauna í BBC Young Musician of the Year-keppninni 1989. Sama ár hóf hann háskólanám við King’s College í Cambridge og lauk þaðan námi með ágætiseinkunn. Hann skaust skjótt upp á stjörnuhimininn að loknu námi og hlaut fjölda pantana, meðal annars frá Birmingham-sinfóníuhljómsveitinni og Sir Simon Rattle, sem hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður hans um langt árabil. Meðal annars valdi Rattle Asyla eftir Adès sem fyrsta tónverkið sem hann stjórnaði sem aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Berlín árið 2002.

Verk Adèsar hafa verið flutt af öllum helstu hljómsveitum heims, og óperur hans, Powder her Face, Ofviðrið og The Exterminating Angel hafa vakið gríðarmikla athygli. Þá hafa verk hans hljómað í öllum helstu tónleikasölum og hátíðum heims, meðal annars í Carnegie Hall, Covent Garden í Lundúnum og Fílharmóníunni í Berlín. Hann hefur verið staðartónskáld hjá Fílharmóníusveitinni í Los Angeles og Sinfóníuhljómsveitinni í Boston. Þá hefur hann stjórnað fjölda hljómsveita í eigin verkum og annarra, meðal annars Birmingham-sinfóníuhljómsveitinni, Kammerhljómsveit Evrópu, Lundúnasinfóníunni og Þjóðarhljómsveit Frakklands. Adès hlaut tvö af stærstu verðlaunum klassíska tónlistarheimsins árið 1999, Ernst von Siemens-verðlaunin og Grawemeyer-verðlaunin. Adès hefur einu sinni áður stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, í Háskólabíói haustið 2007.