Þorsteinn Freyr Sigurðsson
Einsöngvari
Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór fæddist á Siglufirði. Hann hóf söngnám árið 2005 hjá Elísubetu Erlingsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík og hélt því áfram við Listaháskóla Íslands. Meðfram náminu tók hann tvívegis þátt í óperustúdíói Íslensku óperunnar og söng í kór hennar. Að loknu námi hér heima stundaði hann framhaldsnám við Hanns-Eisler-tónlistarháskólann í Berlín, þar sem Scot Weir var kennari hans, og lauk meistaragráðu árið 2013. Í Berlín sótti hann einnig tíma hjá Janet Williams. Á árunum 2014–17 var Þorsteinn fastráðinn við óperuhúsið í Ulm í Þýskalandi og söng þá m.a. Camille de Rossillon í Kátu ekkjunni, Ferrando í Così fan tutte, Nemorino í Ástardrykknum, Bob Boles í Peter Grimes, Pong í Turandot og Don Ottavio í Don Giovanni. Þorsteinn söng hlutverk Spoletta í uppfærslu Íslensku óperunnar á Toscu haustið 2017.
Þorsteinn hefur einnig mikla reynslu af ljóðasöng og hefur komið fram á ljóðatónleikum í Þýskalandi og á Íslandi. Hann fluttist aftur heim til Íslands árið 2017 og starfar við söng, söngkennslu og kórstjórn.