EN

Þórunn Ósk Marinósdóttir

Víóluleikari

Þórunn Ósk Marinósdóttir er leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún er fædd og uppalin á Akureyri þar sem hún stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur. Hún lauk mastersprófi í víóluleik við Konunglega tónlistarháskólann í Brussel undir handleiðslu Ervin Schiffer. Í Belgíu var hún leiðari víóludeildar kammerhljómsveitarinnar Prima la Musica undir stjórn Dirks Vermeulen og um tíma meðlimur í I Fiamminghi-hljómsveitinni undir stjórn Rudolfs Werthens.

Þórunn hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Prima la Musica, Kammersveit Reykjavíkur og Sumida Triphony Hall-hljómsveitinni í Tókýó. Hún kennir víóluleik og kammermúsík við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands auk þess sem hún hefur reglulega kennt á sumarnámskeiðum við Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Hörpu og Tónlistarhátíð unga fólksins. Þórunn spilar mikið af kammermúsík og er reglulegur gestur Kammermúsíkklúbbsins, annarra tónlistarhátíða í Reykjavík og víðar. Árið 2012 stofnaði hún Strokkvartettinn Sigga ásamt félögum sínum í kvartettinum.

Plötuútgáfan Smekkleysa hefur gefið út hljóðritanir þar sem Þórunn fer með einleikshlutverkið í víólukonsertinum Ombra ásamt Kammersveit Reykjavíkur og Dagbókarbrot fyrir víólu og píanó ásamt Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, hvoru tveggja eftir Hafliða Hallgrímsson. Þá hefur hún leikið á fjölmörgum öðrum hljóðritum, oftast undir merkjum Kammersveitar Reykjavíkur, nú síðast á diski með kammertónlist þar sem septettinn Langur Skuggi eftir Hauk Tómasson er meðal annarra verka.