EN

Una Sveinbjarnardóttir

Fiðluleikari

Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari er 3. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hún hefur leikið með Ensemble Modern í Frankfurt, Rundfunk-Sinfóníuhljómsveitina í Berlín, Deutsche Oper í Berlín, Klangverwaltung í München og jafnframt verið konsertmeistari Klassísku fílharmóníunnar í Bonn, hljómsveitar Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þrándheimi undir stjórn Krzysztof Penderecki. Þá hefur hún leikið með Kammersveit Reykjavíkur frá árinu 1995. Una stundaði fiðlunám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarháskólann í Köln og Universität der Künste í Berlín.

Una er landskunn fyrir innblásinn leik sinn, bæði sem sólisti og í strokkvartettinum Sigga sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Þegar hún lék einleik með Sinfóníunni fyrir nokkrum árum sagði tónlistarrýnir Fréttablaðsins flutning hennar hafa einkennst af „aðdáunarverðri fagmennsku, ljóðrænni innlifun og skáldskap, en einnig tæknilegum yfirburðum“.