EN

Vera Panitch

Fiðluleikari

Vera Panitch er fædd í Kaupamannahöfn árið 1993 og hóf fiðlunám fimm ára gömul hjá rússneska fiðluleikaranum Arkadi Zelianodjevo. Árið 2005 hélt hún til Seattle þar sem hún lærði hjá Yuriy Mikhlin og fimmtán ára hlaut hún inngöngu í Konunglegu dönsku tónlistarkonservatoríuna þaðan sem hún brautskráðist með hæstu einkunn. Þar naut hún leiðsagnar Alexandre Zapolski en að auki hefur Vera sótt fjölmarga masterklassa og námskeið hjá heimsþekktum fiðluleikurum á borð við Boris Kushnir, Gerhard Schultz, Nataliu Prischepenko og Noah Bendix-Balgley, konsertmeistara Berlínarfílharmóníunnar.

Vera hefur komið margoft fram sem einleikari, m.a. ásamt Dönsku kammersveitinni, Sinfóníuhljómsveitinni í Óðinsvéum, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún skipar ásamt Steineyju Sigurðardóttur verðlaunadúettinn Dúó Eddu og er einn liðsmanna í Kordo kvartettnum en hefur að auki tekið þátt í fjölbreytilegum tónlistarverkefnum þvert á stíla og strauma. Vera hefur leikið með Sinfóníuhljómsveitinni frá árinu 2016 og gegnir nú stöðu annars konsertmeistara. Hún hefur unnið til fjölmargra verðlauna fyrir fiðluleik sinn, í Danmörku og víðar.