Vera Panitch
Fiðluleikari
Vera Panitch (1993) er af úkraínsku og rússnesku bergi brotin, er fædd í Kaupmannahöfn en býr nú og starfar á Íslandi. Hún hóf fiðlunám fimm ára gömul og var komin í Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn aðeins fimmtán ára. Þar var hún nemandi í fiðluleik hjá Alexandre Zapolski og kammertónlist hjá Tim Frederiksen. Hún lauk öllum prófgráðum, BA, MA og einleiksgráðu með hæstu einkunn. Hún var einnig við nám í New York í hálft ár þar sem hún sótti tíma hjá þekktum kennurum.
Þegar Vera var aðeins 22 ára hreppti hún stöðu staðgengils leiðara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og stuttu síðar stöðu annars konsertmeistara sem hún gegnir nú. Vera hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, þar á meðal van Hauen-verðlaunin árið 2015 og Sonningverðlaunin árið 2018. Hún hefur unnið til verðlauna í Alþjóðlegri keppni ungra flytjenda í Tékklandi, hæfileikakeppni í Seattle, vann til gullverðlauna í Tónlistarkeppni Berlinske í Danmörku og 1. verðlaun í fiðlusamkeppni Jacobs Gade þar sem hún fékk auk þeirra sérstök verðlaun fyrir flutning á dönsku verki. Hún vann einnig til verðlauna árið 2020 ásamt Steiney Sigurðardóttur sellóleikara í hinni virtu P2 kammertónlistarkeppni en saman mynda þær Duo Eddu. Vera er meðlimur strengjakvartettsins Kordo, ásamt Joaquín Páli Palomares eiginmanni sínum.
Vera hefur oft komið fram sem einleikari og árið 2014 frumflutti hún fiðlukonsert eftir Benjamin de Murashkin sem hann samdi fyrir hana á Pulsar-tónlistarhátíðinni ásamt Hljómsveit konunglega tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn undir stjórn Jean Thorel.
Vera kennir í Tónlistarskóla Kópavogs og Menntaskóla í tónlist og hefur einnig kennt við Listaháskóla Íslands. Hún hefur komið fram með þekktum tónlistarmönnum af öllu tagi, meðal annars með Björk á tónleikum hennar.