EN

Víkingur Heiðar Ólafsson

Píanóleikari

Víkingur Heiðar Ólafsson hefur verið íslenskum tónleikagestum að góðu kunnur síðan hann þreytti frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2001. Hann er eftirsóttur einleikari og hefur m.a. leikið með hljómsveitinni Fílharmóníu í London, Elbphilharmonie-hljómsveitinni í Hamborg, Los Angeles Philharmonic, dönsku og sænsku útvarpshljómsveitunum og Konzerthaus-hljómsveitinni í Berlín. Á næstu mánuðum kemur hann m.a. fram með Toronto Symphony, NHK sinfóníuhljómsveitinni í Tokyo og Þjóðarhljómsveit Eistlands. Á þessu ári hefur hann haldið einleikstónleika í Elbphilharmonie, International Piano Series London, Fílharmóníunni í Köln, Konzerthaus í Vínarborg, í Eldborgarsal Hörpu, á La Roque d'Anthéron píanóhátíðinni í Frakklandi, MITO í Mílanó, Mostly Mozart í New York og hlotið lofsamlega gagnrýni í blöðum á borð við New York TimesGramophoneBBC Music MagazineLe Monde, og The Independent.

Fyrsti diskur Víkings fyrir Deutsche Grammophon-útgáfuna, með píanóverkum Philip Glass, kom út í janúar á þessu ári og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Næsti diskur Víkings fyrir DG kemur út um mitt næsta ár og verður hann helgaður tónlist Johanns Sebastians Bach. 

Víkingur er listrænn stjórnandi Reykjavík Midsummer Music og Vinterfest tónlistarhátíðanna. Hann hefur frumflutt sex íslenska píanókonserta, unnið sjónvarpsþættina Útúrdúr (2012–13) og stofnað útgáfufyrirtækið Dirrindí árið 2009.

Víkingur var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af Guðna Th. Jóhannessyni í júní á þessu ári. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga, m.a. fjórum sinnum verið valinn Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hlotið Íslensku bjartsýnisverðlaunin. 

Víkingur stundaði píanónám hjá Erlu Stefánsdóttur og Peter Máté, og síðar hjá Jerome Lowenthal og Robert McDonald við Juilliard tónlistarskólann í New York. Hann naut um árabil stuðnings úr Minningarsjóði um Birgi Einarson.