EN

Víkingur Heiðar Ólafsson

Píanóleikari

Víkingur Heiðar Ólafsson er meðal eftirsóttustu einleikara sinnar kynslóðar. Hann var útnefndur listamaður ársins á Gramophone-verðlaununum árið 2019, auk þess sem plata hans með verkum eftir Johann Sebastian Bach hlaut aðalverðlaun BBC Music Magazine verðlaunanna í apríl 2019. Nú nýverið hlaut hann Opus Klassik-verðlaunin fyrir píanóplötu ársins annað árið í röð, fyrir plötuna Debussy/Rameau.

Á komandi tónleikaárum mun Víkingur gegna stöðu staðarlistamanns við nokkur helstu tónlistarhús heims. Í fyrra var hann staðarlistamaður Konzerthaus í Berlín og á þessu starfsári gegnir hann sömu stöðu hjá Southbank Centre í London. Meðal hljómsveita sem hann mun koma fram með á næstunni má nefna Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles og New York, Santa Cecilia í Róm, Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco og Cleveland-hljómsveitina. Þá eru einnig fyrirhugaðir debut-tónleikar hans í Carnegie Hall í New York.

Víkingur heldur opnunartónleika Listahátíðar í Reykjavík 2020 þar sem hann mun leika einstaka efnisskrá af nýrri einleiksplötu sem kom út hjá Deutsche Grammophon fyrr á þessu ári. Á fyrri hluta tónleikanna vefur hann saman hljómborðsverkum Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau og flytur að lokum eitt helsta meistaraverk rússneskra tónbókmennta, Myndir á sýningu eftir Modest Músorgskíj, í mikilfenglegri umritun eftir Vladimir Horowitz.