Víkingur Heiðar Ólafsson
Einleikari
Það er orðinn næstum aldarfjórðungur síðan Víkingur Heiðar Ólafsson steig fyrst á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og á þeim tíma hefur hann haslað sér völl sem einn eftirsóttasti píanóleikari heims. Hljóðritunum hans, sem koma út á vegum Deutsche Grammophon, hefur verið streymt af milljónum manna og þær hafa unnið til viðurkenninga eins og Opus Klassik verðlaunanna í Þýskalandi, verðlauna BBC Music Magazine og nú síðast Grammy-verðlauna. Víkingur hefur margsinnis hreppt Íslensku tónlistarverðlaunin, tímaritið Gramophone útnefndi hann listamann ársins 2019 og árið 2022 hlaut hann hin virtu Rolf Schock verðlaun sem Konunglega sænska vísindaakademían veitir.
Í fyrra helgaði Víkingur allt starfsárið einu tónverki, Goldberg-tilbrigðunum eftir Johann Sebastian Bach, sem hann flutti á næstum hundrað tónleikum um veröld víða við fádæma undirtektir. Á yfirstandandi starfsári er hann staðarlistamaður í Tonhalle í Zürich og hjá Konunglegu fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi auk þess að vera Künstler im Fokus (Listamaður í brennidepli) í Musikverein í Vínarborg. Hann hefur í vetur leikið einleik með Cleveland-hljómsveitinni, Fílharmóníusveit Lundúna og Tonhalle-hljómsveitinni og í janúar frumflutti hann nýjan píanókonsert eftir John Adams, After the Fall, með Sinfóníuhljómsveitinni í San Francisco. Þá hafa þau Víkingur og Yuja Wang heillað áheyrendur austan hafs og vestan með flutningi sínum á verkum fyrir tvö píanó, en í vor leggur Víkingur einsamall í tónleikaferðalag þar sem hann leikur þrjár síðustu píanósónötur Beethovens í ýmsum helstu tónleikasölum Evrópu og Bandaríkjanna.