Ville Matvejeff
Hljómsveitarstjóri
Finninn Ville Einar Matvejeff (f. 1986) hefur skapað sér nafn sem hljómsveitarstjóri, tónskáld og píanisti. Hann er listrænn stjórnandi Óperuhátíðarinnar í Savonlinna, aðalgestastjórnandi hljómsveitar Norrlandsóperunnar í Umeå (Svíþjóð). Þá var hann aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Jyväskylä frá 2014 til 2022 og aðalgestastjórnandi sem og tónlistarráðgjafi Króatíska þjóðarleikhússins HNK Ivan Zajk í Rijeka. Hann hefur meðal annars staðið á hljómsveitarstjórapalli fílharmóníuhljómsveitanna í Helsinki, Duisburg og Tampere, Tapiola Sinfonietta, Slóvensku sinfóníuhljómsveitarinnar, Sinfóníunnar í Lahti, Ulster-hljómsveitarinnar, Sænsku útvarpshljómsveitarinnar og Óperunnar í Gautaborg.
Matvejeff hefur stjórnað fjölmörgum óperum, þar á meðal allt frá Brúðkaupi Fígarós til nýrri verka á borð við Lear eftir Aribert Reimann Síðustu freistinguna eftir Joonas Kokkonen, Rauðu línuna eftir Aulis Sallinen og Adriana Mater eftir Kaiju Saariaho. Þá stjórnaði hann tónleikauppfærslu á Wagneróperunni Parsifal á tónlistarhátiðinni í Turku árið 2017 og sýningum á Hans og Grétu eftir Humperdinck í Malmö-óperunni. Í Króatíska þjóðarleikhúsinu Ivan Zajk í Rijeka hefur hann meðal annars stjórnað óperunum Elektra eftir Richard Stauss, Tristan og Ísold eftir Wagner, La Bohème eftir Puccini og Verdi-óperunum Aidu, Falstaff og Otello. Þá stýrði hann heimsfrumflutningi á óperu Aulis Sallinen Kastalinn í vatninu sumarið 2017.Átján ára gamall þreytti Ville Matvejeff frumraun sína sem píanóleikari með Finnsku útvarpshljómsveitinni. Síðan þá hefur hann meðal annars unnið með sópransöngkonunni Karitu Mattila og leikið með henni í Vínaróperunni, Wigmore Hall í London og óperunni í Zürich í Sviss.
Sem tónskáld hefur hann skrifað verk fyrir Finnsku kammersveitina og fyrir opnun Tónlistarmiðstöðvarinnar í Helsinki 2011 samdi hann fiðlukonsert að beiðni Finnsku útvarpshljómsveitarinnar. Þá hefur Matvejeff samið fjölmörg verk fyrir kóra.